19.2.07

The Graduate

Snilldar mynd sem við hjónin vorum að horfa á frá 1967. Aðalleikarinn er Dustin Hoffman. Þetta er gamanmynd og húmorinn er svolítið í ætt við myndir með Jacques Tati og Peter Sellers. Hún er ekki beint sprenghlægileg, húmorinn felst aðallega í því að aðalpersónan lendir í óþægilegum aðstæðum sem hún á erfitt með að fást við. Frá þessu tímabili mæli ég einnig með The Party (1968) og Les Vacances de Monsieur Hulot(1953).

Talandi um kvikmyndir þá sáum við einnig Children of Men um helgina. Hreint ótrúlega vel gerð mynd sem blandar saman ótal þætti og stendur vel í sérhverjum þeirra.

Annað sem ég hef verið að horfa á nýlega eru þættirnir "The Wire" á HBO. Þetta eru þættir um löggur og bófa í Baltimore. Ég hef ekki mikla reynslu af lögguþáttum en þessir eru listilega vel skrifaðir. Þeir hafa unnið rannsóknavinnuna vel, höfundarnir, því lýsingarnar á götulífinu og pólítíkinni bæði hjá borginni og hjá glæpagengjunum eru mjög trúverðugar. Í fjórðu seríu þáttanna breytir aðalhetjan um starf og verður grunnskólakennari í fátæku hverfi. Ég er ekki kominn svo langt enn en mér skylst að hann komist að því að kennarastarfið sé síst auðveldara og langt í frá hættuminna en löggustarfið.

Það er raunar það sama og lögga sagði mér sem stoppaði mig fyrir of hraðan akstur um árið. Hann reyndi að vera grunnskólakennari en það var of hættulegt. Þannig að hann fór í lögguna.

12.2.07

Enn um skemmdan mat og aðra ólyfjan

Ég ætla sjálfur að svara síðustu færslu enda kemur í ljós að ýmiss fróðleikur er á netinu.

Tvö góð svör er að finna á vísindavefnum. Annars vegar um kæsingu en hinsvegar um hversvegna hákarl er ekki étinn ferskur. Sjá einnig hér.

Ég vísaði áður til greinar um efnagreiningu á kæstum hákarli.

11.2.07

Séríslenskt

Undanfarin tvö kvöld höfum við hingað fengið gesti í mat. Þeim bauð ég meðal annars hákarl og brennivín. Kári, sem kom í heimsókn á föstudaginn með tilvonandi eiginkonu sinni, benti mér á að svarti dauði er ekki sami óþverri og brennivín. Þetta eru semsagt tveir ólíkir óþverrar: svarti dauði er semsagt vodki en brennivín er eins og við vitum öll nokkurskonar landi með léttum kúmenkeim. Þetta vissi ég semsagt ekki fyrir.

Varðandi hákarlinn þá hef ég verið að velta því fyrir mér í mörg ár nákvæmlega hvernig hákarl er verkaður. Það þekkja allir sögurnar um hákarl sem er grafinn í fjöru og jafnvel migið á. Eitthvað segir mér að menn hafi minna fyrir framleiðslunni á 21. öldinni. Það er fullkomlega ómögulegt að verða sér úti um góðar upplýsingar um hákarlsverkunaraðferðir á netinu. Fyrir nokkrum árum þegar ég var að leita að upplýsingum þá fann ég grein eftir prófessor í efnafræði við HÍ sem hafði efnagreint hákarl. Mig minnir að hann hafi komist að því að þar væri að finna ýmis vafasöm efni en flest undir hættumörkum. Það var hinsvegar ekki mikil umfjöllun þar heldur um raunverulegar verkunaraðferðir.

Nú skora ég á þig, lesandi góður, að fræða okkur hin um það hvernig þessa kræsingar verða í raun og veru til.

7.2.07

Blogg kapp

Þetta blogg er eiginlega um ekki neitt.

Konan mín, hún Tinna, er að blogga rétt í þessu og ég ákvað að blogga líka henni til samlætis.

Ég kláraði um daginn bókina Rokland eftir Hallgrím Helgason. Hún er ansi skemmtileg. Áður en ég náði að klára hana stal fyrrtéð Tinna henni af mér og kláraði áður en ég fékk nokkru um það ráðið. Ég fór því í fýlu og kláraði hana ekki fyrr en núna.

Aðrar bækur sem ég er að lesa þessa stundina eru eftirtaldar; Against the Gods: The Remarkable Story of Risk (P Bernstein), Das Urteil (Franz Kafa), Die Erzaehlungen (Thomas Mann), How to Climb 5.12 (E Horst) og L´Etranger (Albert Camus). Ég get mælt með þeim öllum. Það segir þó sitt að ég kláraði Rokland á undan öllum hinum.

5.2.07

Frost og sprikl

Þessa dagana er fáránlega kalt í Chicago. Það er búið að vera í kringum 20 gráðu frost í nokkra daga. Ef vindurinn er tekinn með í reikninginn, s.k. "windchill factor", þá er líðanin eins og í 30 gráðu frosti. Æði kalt.

Í þessum kulda er ég farinn að taka þátt í íþrótt sem heitir Broomball. Spilað er á skautasvelli en engir eru skautarnir, maður mætir bara í strigaskóm. Síðan er þetta nokkurskonar hokkí, maður er með kylfur og stóran hjálm og reynir að koma boltanum í lítið mark. Þetta er ansi skemmtilegt og nú hefur liðið okkar, sem heitir "Polar coordinates", unnið þrjá leiki í röð og komist áfram í næsta riðil (?). Þetta er náttúrulega tilvalið sport í 20 gráða frosti. Tinna tók þátt í fyrstu tveimur leikjunum en þá var brotið illa á henni og hún lenti á svellinu eftir tvöfalda skrúfu í loftinu.

Tinnu finnst þetta þó greinilega ekki næg hreyfing af minni hálfu því nú gaf hún mér bók í síðbúna afmælisgjöf sem heitir "How to climb 5.12". 5.12 er semsagt erfiðleikagráðan en eins og er rembist ég við að klifra 5.9 og hef kannski getad eina 5.10. Þessi skali er nokkurskonar richter skali þannig að ég get klifrað svona skjálfta á við þungan mann á gangi er bókin fjallar um að framreiða Suðurlandsskjálfta. Gangi mér vel.

1.2.07

Plön

Kæri lesandi

Ef þú ert ennþá að lesa þetta blogg, þótt liðið sé á þriðja mánuð frá síðustu færslu, þá ert þú hetja mikil.

Ég hugsa að ég láti duga fyrir þessa færslu að segja ykkur frá plönum okkar hjóna í næstu framtíð.

Í Spring break, sem er um miðjan mars, ætla ég að koma heim til Íslands. Ég verð í akkorðsvinnu að vinna að stuttu verkefni sem mér finnst nógu áhugavert til að taka smá frí frá doktorsvinnunni til að spá í. Hún Tinna ætlar ekki að húka heima í kotinu á meðan heldur ætlar hún til Bermúda í skólaferð.

Um sumarið stefnir í að ég verði í vinnu hjá fjárfestingabanka í New York. Tinna stefnir á að koma með og vinna í rannsóknunum sínum. Við stefnum á að búa á Manhattan. Ef þú veist um íbúð þar til leigu þá hef ég mikinn áhuga. Gestir eru sennilega velkomnir.

Lengra í framtíðina þori ég ekki að skyggnast með ykkur rétt eins og stendur.