11.2.07

Séríslenskt

Undanfarin tvö kvöld höfum við hingað fengið gesti í mat. Þeim bauð ég meðal annars hákarl og brennivín. Kári, sem kom í heimsókn á föstudaginn með tilvonandi eiginkonu sinni, benti mér á að svarti dauði er ekki sami óþverri og brennivín. Þetta eru semsagt tveir ólíkir óþverrar: svarti dauði er semsagt vodki en brennivín er eins og við vitum öll nokkurskonar landi með léttum kúmenkeim. Þetta vissi ég semsagt ekki fyrir.

Varðandi hákarlinn þá hef ég verið að velta því fyrir mér í mörg ár nákvæmlega hvernig hákarl er verkaður. Það þekkja allir sögurnar um hákarl sem er grafinn í fjöru og jafnvel migið á. Eitthvað segir mér að menn hafi minna fyrir framleiðslunni á 21. öldinni. Það er fullkomlega ómögulegt að verða sér úti um góðar upplýsingar um hákarlsverkunaraðferðir á netinu. Fyrir nokkrum árum þegar ég var að leita að upplýsingum þá fann ég grein eftir prófessor í efnafræði við HÍ sem hafði efnagreint hákarl. Mig minnir að hann hafi komist að því að þar væri að finna ýmis vafasöm efni en flest undir hættumörkum. Það var hinsvegar ekki mikil umfjöllun þar heldur um raunverulegar verkunaraðferðir.

Nú skora ég á þig, lesandi góður, að fræða okkur hin um það hvernig þessa kræsingar verða í raun og veru til.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home