15.2.08

Mistök við víngerð

 

Þessi ágæti maður á myndinni hér til hægri er greifi í Chianti Classico héraðinu sem ég hitti áðan í vínsmökkun. Mjög viðkunnanlegur náungi og fróður um víngerð, enda sér hann um hana sjálfur. Vínin sem hann leyfði okkur að smakka voru úr mjög óvenjulegum þrúgum, sérstaklega fyrir Chianti Classico héraðið, þar sem aðallega er að finna Sangiovese, Cabernet Sauvignon, Trebbiano, Calvaioso og Malvasia. Vín greifans voru reyndar að miklu leyti úr Sangiovese (sem betur fer) en síðan voru ýmsar skrýtnar þrúgur með í spilinu. Ástæðan var skemmtileg fyrir okkur en varla fyrir greifann. Árið 1967 ákvað fjölskyldan að gróðursetja mikið af nýjum plöntum. Þeir vissu að sjálfsögðu hvaða þrúgutegundir þeir vildu og fóru til Pisa til að kaupa þrúgurnar. Miklu seinna kom í ljós að vínviðurinn sem þeir keyptu var samansafn af ýmsum tegundum öðrum en þeim sem þeir vildu. Það sem hafði gerst var 1967 voru mikil flóð í Pisa og þá flutu merkimiðarnir meira og minna frá vínviðnum sem notaður var til að selja af. Svo virðist sem sölumennirnir hafi einfaldlega giskað á hvað var hvað með ekki betri árangri en svo.

Hann sagði mér frá félaga sínum sem keypti sér einnig það sem hann hélt að væri Sangiovese á sama tíma. Síðan liðu áratugir og manninum ætlaði aldrei að takast að ná almennilega kraftmiklu víni úr þrúgunum. Kemur í ljós að hann er búinn að vera að rækta Pinot Noir allan þennan tíma. Ekkert mál hugsar kallinn, selur það einfaldlega fyrir það sem það er og fær núna gríðarhá verð fyrir vínin sín, enda sérlega fágætt að fá Pinot Noir frá Chianti Classico.
Posted by Picasa

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home