9.2.08

Mendoza

Áhugi á víni er að fara vaxandi þessa stundina en hefur þó verið nógur fyrir.

Áttaði mig á því áðan að vínið sem við drukkum í kvöld í hópi félaga er næstum því frá sama stað í Argentínu og vín sem við drukkum fyrir nokkrum dögum hér heima hjónin. Um er að ræða Mendoza hérað í Argentínu, sem er beint vestan af Buenos Aires í u.þ.b. 1000m hæð í hlíðum Andes fjallagarðsins. Argentína framleiðir gríðarlegt magn af víni. Það er í fimmta sæti á alþjóðavísu í framleiðslumagni og fremst meðal suðurameríkuþjóða, framar Chile. Mendoza er aðalhéraðið og heitir eftir samnefndri borg í miðju héraðinu. Bestu aðstæður til víngerðar eru í mikilli hæð vegna mikils sumarhita. Það getur hinsvegar verið varasamt því fyrsta frostið getur borið að snemma. Auk þess kemur fyrir að mikil haglél skemmi alla uppskeruna.

Frægasta þrúgan í Mendoza er Malbec, sem var flutt inn frá Bordeaux á 19. öldinni. Á þeim tíma var Malbec algengasta þrúgan í Bordeaux en nú hefur Cabernet Sauvignon tekið við eins og frægt er. Malbec þrúgan er reyndar ekki svo ósvipuð Cabernet Sauvignon, svipuð dökk berjabrögð sem minna á sólber, brómber, kirsuber, tóbak og leður.

Vínin sem um ræðir voru annarsvegar frá Kaiken víngarðinum en hinsvegar Alamos merki Catena fjölskyldunnar. Báðir garðarnir eru innan við 10km sunnan við borgina Lujan de Cuja, skammt sunnan Mendoza borgar. Bæði voru mikil vín með óvenjuháum áfengisstyrk, annars vegar 13% en hinsvegar 14,5%. Mjög sterk berjabrögð og djúpir leðurtónar. Ágæt vín í spjall með góðum vinum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home