19.2.07

The Graduate

Snilldar mynd sem við hjónin vorum að horfa á frá 1967. Aðalleikarinn er Dustin Hoffman. Þetta er gamanmynd og húmorinn er svolítið í ætt við myndir með Jacques Tati og Peter Sellers. Hún er ekki beint sprenghlægileg, húmorinn felst aðallega í því að aðalpersónan lendir í óþægilegum aðstæðum sem hún á erfitt með að fást við. Frá þessu tímabili mæli ég einnig með The Party (1968) og Les Vacances de Monsieur Hulot(1953).

Talandi um kvikmyndir þá sáum við einnig Children of Men um helgina. Hreint ótrúlega vel gerð mynd sem blandar saman ótal þætti og stendur vel í sérhverjum þeirra.

Annað sem ég hef verið að horfa á nýlega eru þættirnir "The Wire" á HBO. Þetta eru þættir um löggur og bófa í Baltimore. Ég hef ekki mikla reynslu af lögguþáttum en þessir eru listilega vel skrifaðir. Þeir hafa unnið rannsóknavinnuna vel, höfundarnir, því lýsingarnar á götulífinu og pólítíkinni bæði hjá borginni og hjá glæpagengjunum eru mjög trúverðugar. Í fjórðu seríu þáttanna breytir aðalhetjan um starf og verður grunnskólakennari í fátæku hverfi. Ég er ekki kominn svo langt enn en mér skylst að hann komist að því að kennarastarfið sé síst auðveldara og langt í frá hættuminna en löggustarfið.

Það er raunar það sama og lögga sagði mér sem stoppaði mig fyrir of hraðan akstur um árið. Hann reyndi að vera grunnskólakennari en það var of hættulegt. Þannig að hann fór í lögguna.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home