24.8.06

Kanóferð

Í þessum skrifuðu orðum erum við Tinna að pakka fyrir kanóferðina miklu. Farið verður af stað á morgun til Minneapolis og tjaldað annað kvöld á mörkum Boundary Waters Canoe Area Wilderness. Á laugardaginn hefst svo kanóferðin sjálf. Við munum gista í fimm nætur á svæðinu, það þýðir að við verðum í sex daga á kanó.

Á svæðinu eru mörg lítil vötn. Maður ferðast um þau á kanó og ferjar síðan kanóið og farangurinn yfir á næsta vatn. Leiðin liggur frá Kawishiwi Lake til Sawbill Lake. Í fyrra fórum við í mun styttri kanóferð frá Sawbill Lake. Þá fórum við út á næsta vatn við hliðina, Lake Alton, og tjölduðum þar í tvær nætur. Komum síðan til baka. Ferðin í ár verður því mun lengri.

Við erum bæði þvílíkt spennt fyrir þessari ferð. Ekki skemmir fyrir að við munum fá hingað góða gesti að ferðinni lokinni, þá Ragga og Leif.

20.8.06

Economist misnotar tölulegar upplýsingar ?

Ég er mjög hrifinn af tímaritinu Economist. Þar fæ ég bæði fréttir af nýjungum í fjármálaheiminum en líka alveg frábæra umfjöllun um pólitískt ástand víðsvegar um heim.

Í nýjasta tölublaðinu er grein um tryggingaiðnaðinn í Bandaríkjunum. Þar notar höfundur töflu
yfir heildariðgjaldagreiðslur landa sem hlutfall af vergri landsframleiðslu til að færa rök fyrir því að iðgjöld séu lægri í Bandaríkjunum en mörgum öðrum löndum. Þannig er hlutaflið um 8.5% í BNA en um 12.2% í Bretlandi.

Ég er ekki sannfærður við að sjá þessar tölur. Heildariðgjöld fara nefnilega bæði eftir upphæð iðgjaldanna en líka eftir því hversu mikið er keypt af tryggingum. Þannig var þetta hlutfall t.d. nálægt 3% á Íslandi skv. upplýsingum frá Norsku hagstofunni. Ástæða þess er sennilega ekki sú að tryggingar eru svona ódýrar á Íslandi. Bandaríkjamenn verða nefnilega að kaupa sér heilsutryggingu sem við Íslendingar sleppum við.

Ég er ekki hagfræðingur og langt frá því að vera sérfræðingur um tryggingamál. Þó þykir mér þessi meðferð tölulegra upplýsinga ekki nógu góð. Economist er venjulega með mjög pottþéttar og sannfærandi greinar. Það er vonandi ekki að breytast.

19.8.06

Plan of Attack

Bókin sem ég er að lesa þessa dagana heitir 'Plan of Attack´
og er eftir Bob Woodward. Hann er blaðamaður hjá
Washington Post sem er gríðarlega virtur innan bransans,
ekki síst fyrir að vera með bestu samböndin í hvíta
húsinu. Hann á það til að skrifa ekki fréttir um
safaríkustu upplýsingarnar heldur setja þær í bækurnar
sínar.

Plan of Attack kom út 2004. Hún fjallar um aðdraganda
stríðsins í Írak innan Bandarísku ríkisstjórnarinnar.
Woodward tók viðtöl við helstu forsprakka á borð við
Rice, Cheney, Powell, Rumsfeld, Card og líka Bush
sjálfan. Það er með ólíkindum hversu mikið honum
hefur verið trúað fyrir.

Meðal efnis eru leynileg viðtöl Bush bæði við
ráðgjafa sína og einnig við erindreka erlendra
ríkisstjórna, t.a.m. Bretlands og Saudi Arabíu. Einnig
er fjallað um sambönd innan hvíta hússins. Þannig
var samkvæmt bókinni Powell innanríkisráðherra mjög
í nöp við Cheney og Rumsfeld.

Frásögnin er í tímaröð og greinir frá samskiptum og
helstu atburðum. Rithöfundurinn forðast að túlka eða
koma eigin skoðunum á framfæri. Þrátt fyrir það er
greinilegt af aflestri bókarinnar að Bush og ráðgjafar
hans voru farnir að hallast að því að ráðast á Írak
jafnvel fyrir 11. september 2001. Þeir höfðu litla
trú á að samningaleiðin myndi bera árangur. Meðan á
vopnaleit Hans Blix stóð voru þeir búnir að sannfærast
um að Blix væri ekki nógu ákveðinn í leitinni.

Í forsetakosningunum 2004 var bókin á leslista beggja
frambjóðanda, bæði Bush og Kerry. Ég get ekki annað
en mælt með henni sjálfur.

18.8.06

Vatnaskil

Formaður Framsóknarflokksins er fylgjandi niðufellingu tolla á landbúnaðarvörur skv þessari frétt á mbl.is:
Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, segist telja augljóst, eftir að hafa lesið skýrslu um ástæðu fyrir háu matvælaverði hér á landi, að fella þurfi niður vörugjöld.

„Skattur á matvæli þarf að vera sá sami, þar á meðal á hótelum og veitingahúsum. Breyta þarf innflutningsverndinni þannig að samkeppni aukist. Hvað réttlætir t.d. að við borgum miklu hærra verð fyrir kjúklinga og svínakjöt en aðrir neytendur í Evrópu. Það er enginn eðlismunur á þessari framleiðslu og margvíslegri annarri framleiðslustarfsemi í landinu sem býr við óhefta samkeppni við önnur lönd,” sagði Halldór í ræðu sinni á flokksþingi Framsóknarflokksins, sem hófst nú síðdegis en á morgun verður kjörinn nýr formaður flokksins.

Háir innflutningstollar á matvælum og niðurgreiðslur til bænda eru efnahagslegt vandamál í öllum vestrænum löndum. Tollarnir hafa í för með sér óhagkvæmni í framleiðslu auk þess sem þróunarlöndin eru kúguð með því að halda þeim frá markaðnum. Niðurfelling á tollum mun leiða til lægra vöruverðs til neytenda og um leið hjálpa þróunarlöndum mikið með því að opna fyrir þeim markaði.

Á Íslandi er vandinn sérlega hvimleiður þar sem landbúnaður borgar sig svo lítið. Til að sporna við þessu eru millifærslurnar og tollarnir mjög háir, sem kemur aðallega niður á neytendum. Það kemur líka niður á bændum þar sem niðurgreiðslurnar festa þá í niðurlægjandi atvinnugrein þar sem lífsviðurværi harðvinnandi manna er komið undir sporslum frá almenningi.

Eins og lesendur gera sér sennilega grein fyrir er ég mjög ánægður með þessi straumhvörf í Framsóknarflokknum. Jafnframt kemur mér þetta gríðarlega á óvart. Næstu skref í þessa átt væru að hætta niðurgreiðslum og svo að lokum að leggja niður Framsóknarflokkinn.